„Ég fór á taugum nokkrum sinnum,“ segir Margrét Sigfúsdóttir, hússtjórnarkona og móðir Sigfúsar Sigurðssonar línumanns, sem fylgdist spennt með þegar íslenska handboltalandsliðið bar sigurorð af Pólverjum á Ólympíuleikum og vann sér sæti í undanúrslitum.
„Mér líður æðislega vel og er svo miklu meira en bara stolt af strákunum. Ég var orðin svo stressuð í seinni hálfleik og ákvað að nú gæti ég ekki meir. Ég fór því í sturtu og blés á mér hárið. Þá var ég líka búin með heila kaffikönnu.“
Margrét segir æðislegt að geta fylgst sem stráknum sínum í liðinu. Hún segir skapsveiflurnar miklar þegar Sigfús skorar, en einnig þegar hann klúðrar dauðafærum. „Þá segir maður: „Þú hefðir átt að gera betur“ og „Voðalegur klaufi varstu“, en pabbi hans verður ennþá æstari. Auðvitað gera þeir samt eins vel og þeir geta.“