Þegar Óskar Steingrímsson á Reykhólum var á ferð við
Gilsfjörð nýlega sá hann haförn sveimandi virðulega
í góðum friði hátt í lofti. Hugðist Óskar ná myndum af konungi fuglanna í
öllu sínu veldi. En veldið og friðurinn stóðu ekki lengi því að
gæsahópur kom á hröðu oddaflugi og veittist að erninum sem fataðist
heldur virðuleikinn við þessa óvæntu árás. Gæsirnar gerðu þrjár atlögur
áður en þær hurfu jafnskyndilega og þær birtust.
Að sögn Signýjar M. Jónsdóttur á Gróustöðum við Gilsfjörð, þar
sem ernir eru á sveimi á hverjum degi,
er ekki óvanalegt að sjá ýmsar fuglategundir veitast að erninum, allt
niður í hrossagauka og aðra smáfugla. Hins vegar er það líklega fátítt
eða a.m.k. fáséð að gæsahópur geri skipulega atlögu að haferni rétt
eins og þar væri fylking orrustuflugvéla á ferð.
Sjá meira á Reykhólavefnum.