Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að um ákveðinn misskilning gæta um störf forsætisnefndar og störf annars varaforseta borgarstjórnar. Hann ætli sér að sinna starfi sínu sem annar varaforseti borgarstjórnar vel og störfum þeim sem hann hefur tekið að sér, hvort heldur sem þau eru launuð eða ólaunuð.
Segir hann í samtali við mbl.is að geti auðveldlega sinnt þessu þrátt fyrir að búa í útlöndum og tekur sem dæmi að forsætisnefnd hafi verið kölluð saman fimm sinnum í ár.
Gísli Marteinn segist vilja njóta jafnræðis á við aðra og fá greitt fyrir þau störf sem hann sinni en að sjálfsögðu ekki fyrir þau störf sem hann sinni ekki.
Í pósti sem Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur sent á fjölmiðla kemur fram að forsætisnefnd sé ekki ein af minni nefndum borgarinnar, „heldur nefnd í flokki I sem gefur mest laun. Gísli Marteinn fær því 25% af launum borgarfulltrúa eða 108.344 (krónur) fyrir þá setu sem gera heildarlaun hans 325.032 (krónur) þá mánuði sem hann mun stunda nám í borgarfræðum í Edinborg," segir í tölvubréfi Bjarkar.
Á vef sínum segir Gísli Marteinn að það sé honum ljúft og skylt að sinna því verkefni á borgarstjórnarfundum
þegar Vilhjálmur forseti og Dagur varaforseti eru báðir fjarverandi eða
þurfa að bregða sér frá.
„Fundir forsætisnefndar eru einnig með þeim hætti að ef fundir í nefndinni eru haldnir þegar ég er ekki viðstaddur, er einfalt mál að hafa mig með í gegnum síma, einsog hefur reyndar oft gerst í forsætisnefnd hingað til.
Skrifstofustjóri borgarstjórnar (framkvæmdastjóri nefndarinnar) segir mér að þetta sé vandkvæðalaust. Það er vonandi að það gangi upp. Ef það kemur í ljós að ég geti ekki sinnt starfi 2. varaforseti með sóma, mun ég að sjálfsögðu óska eftir því að einhver annar verði kosinn í embættið í minn stað. Það gildir reyndar um öll önnur störf mín á vettvangi borgarstjórnar, ef mér finnst ég ekki geta sinnt verkefnunum vel, þá mun ég óska eftir að aðrir verði kosnir í minn stað. Sumir fjölmiðlar virðast telja að hægt sé að dæma þetta fyrirfram, en ég held að eini mælikvarðinn á það hvort það gangi upp að vera borgarfulltrúi meðfram námi, þingmennsku, ráðherraembætti eða öðrum störfum sé hvernig fólk stendur sig í starfinu. Ég mun leggja mig allan fram við að standa mig vel," að því er segir á vef Gísla Marteins.