Sveitastjórnarfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir segja, að ekki komi annað til greina en að leggja nýja háspennulínu yfir héraðið í jörð. Setja fulltrúarnir spurningarmerki við umfang framkvæmdanna.
Páll Dagbjartsson, Sjálfstæðisflokki og Bjarni Jónsson, Vinstri grænum, kynntu afstöðu sína til áforma Landsnets um lagningu háspennulínu frá Blöndustöð til Akureyrar á byggðaráðsfundi sveitafélagsins Skagafjarðar.
„Við höfnum þeim áformum Landsnets að leggja háspennulínu (loftlínu) með tilheyrandi burðarmöstrum þvert í gegn um Skagafjarðarhérað, einkum þó þá hugmynd að flytja línuna á nýtt línustæði. Við teljum þau viðhorf úrelt, sem hér eru uppi, að leggja slíkar línur þvert í gegn um blómleg byggðalög," er haft eftir þeim Páli og Bjarna í tilkynningu flokkanna.
„Eina ásættanlega leiðin er að leggja línu þessa í jörðu. Sá aukni kostnaður, sem af því getur hlotist, er nokkuð sem orkuflutningsfyrirtæki verða að taka með í sína útreikninga þegar ráðast skal í framkvæmdir af þessum toga. Ekki má heldur gleyma að taka tillit til þess kostnaðar sem lagður er á þá sem verða fyrir skaða af framkvæmdinni ásamt því tjóni, sem kann að verða valdið á búsetuskilyrðum og ímynd héraðsins."