Hanna Birna Kristjánsdóttir, var kjörin borgarstjóri á fundi borgarráðs sem nú stendur yfir. Fékk Hanna Birna átta atkvæði nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Er hún fjórði borgarstjórinn í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili sem hófst sumarið 2006.
Hanna Birna þakkaði stuðninginn eftir kjörið og segir að borgarfulltrúar verði að hægja á sér í persónulegum ávirðingum. Það viti þau öll og það eigi að hlífa borgarbúum við því eins og hægt er. Það eigi að láta stærri hagsmuni ganga fyrir smærri hagsmunum augnabliksins. Það hafi verið gert með myndun þess meirihluta sem nú tekur við í borginni. Að öðrum kosti hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki slitið síðasta meirihluta. Sagði hún að kjörtímabilið hafi reynst öllum erfitt og það væri rétt hjá Óskari Bergssyni að það væri ábyrgð allra borgarfulltrúa.
Þakkaði hún Ólafi F. fyrir samstarfið en það hafi oft verið erfitt og þá ekki síst undir það síðasta. Traustið brast og trúnaður hvarf og um leið sú kjölfesta sem verður að vera í borginni, sagði Hanna Birna.
Hanna Birna segir að erfiðar aðstæður hafi gert það að verkum að ekki var annað hægt en að mynda eina raunhæfa meirihlutann í Reykjavík. Segir Hanna Birna að hún fái þau skilaboð að borgarmálin snúist meira um borgarfulltrúana heldur en borgarbúa. Því verði að breyta.
Óskaði Hanna Birna eftir stórauknu samstarfi minni- og meirihluta í borgarstjórn og boðaði breytt stjórnskipulag.
Bitruvirkjun á koppinn á ný
Segir hún að borgarstarfsmönnum verði ekki sagt upp og ekki verði dregið úr á velferðarsviðinu. Ýtt verði undir gróskumikið atvinnulíf til að mynda með því að útvega þá orku sem þarf. Rannsóknir vegna Bitruvirkunar verði settar í gang á ný og nýtt félag stofnað um útrás Orkuveitu Reykjavíkur.
Áður en kjör borgarstjóra fór fram gagnrýndu þau Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, og Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum, nýjan meirihluta og sagði Ólafur hann meðal annars grundvallaðan á óheilindum og lygum.
Dagur sagði að mörgum borgarbúum líði þannig, að atkvæðin þeirra hafi verið hirt upp úr kjörkössunum og misnotuð í pólitískum hráskinnaleik.
Svandís sagði að nýr meirihluti í borgarstjórn snérist í raun um stóriðjustefnuna sem almenningur í landinu hefði hafnað. Sagði hún hann vera meirihluta ritstjóra Fréttablaðsins, Þorsteins Pálssonar, stóriðjumeirihluti.