Byggðarráð Norðurþings harmar úrskurð umhverfisráðherra um að fram fari sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fjögurra framkvæmda vegna álvers á Bakka. Segir í ályktun ráðsins, að þessi úrskurður sé þvert á niðurstöðu Skipulagsstofnunar og gegn vilja sveitarfélagsins.
„Það alvarlega við úrskurð ráðherra er að ekkert samráð var haft við heimamenn þ.e. hvorki var leitað upplýsinga eða gagna til að styrkja úrskurðinn. Ljóst er að ef ekki verður fundin lausn á næstu vikum mun úrskurðurinn leiða til frestunar á framkvæmdum vegna álvers á Bakka um það minnsta ár. Slíkt mun hafa mikil neikvæð áhrif á rekstrar- og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins Norðurþings," segir í ályktun ráðsins.
Það segist vona, að farsæl lausn muni finnast í þessu mikilvæga máli á næstu dögum. Taka þurfi af öll tvímæli um að hægt verði að halda áfram rannsóknarborunum á Þeistareykjum og í Kröflu næsta sumar. Slíkt sé forsenda þess að hægt verði að ljúka öllum nauðsynlegum samningum vegna fyrirhugaðar stóriðju á haustdögum 2009.