Greiningardeild Kaupþings fjallar um eldsneytisverð í ½5 fréttum sínum í dag. Segir þar m.a. að svo virðist sem íslensku olíufélögin noti álagningu á eldsneyti til að jafna sveiflur á heimsmarkaðsverði á bensíni og krónunni. Líklega hafi félögin tekið á sig skerta álagningu í kjölfar veikingar krónunnar í vor og reyni nú að vinna upp tapið þegar ró virðist vera að færast yfir á innlendum gjaldeyrismarkaði á sama tíma og heimsmarkaðsverð á bensíni gefur eftir.
Kaupþing segir, að útsöluverð á eldsneyti hafi hækkað meira hér á landi að undanförnu en sem nemur heimsmarkaðsverði á bensíni og gengisþróun krónunnar gagnvart bandaríkjadal.
Í ½5 fréttum segir, að álagning olíufélaga hafi gefið verulega eftir í maí þegar álagningin stóð í rúmum 19% á hvern lítra og hafði þá ekki verið lægri síðan í ágúst 2005. Síðustu mánuði hafi álagningin aukist og var um 36% í ágúst sem er meðaltal síðustu átta ára.