Rekstrarvandi borgarinnar er ærið verkefni nýs meirihluta

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, heldur því fram að sjálfstæðismenn hafi lagst lágt í málatilbúnaði sínum og sagt hann fara með ósannindi þegar hann greindi frá versnandi fjárhagsstöðu borgarinnar. Hann hafi því þurft að vísa í gögn máli sínu til stuðnings.

Ólafur vísar til minnisblaðs sem fjármálaskrifstofa borgarinnar tók saman um að skera þyrfti niður launakostnað hjá borginni. Það er hins vegar ekki fjármálaskrifstofu að ákveða hvaða leið eigi að fara til þess að mæta rekstrarvanda, enda er það pólitískt álitaefni.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs, lét hafa eftir sér við Morgunblaðið í lok júlí á þessu ári að borgarráð hefði miklar áhyggjur af fjárhagsstöðunni. „Við höfum miklar áhyggjur af ástandinu. Ekki síst vegna þess að samkvæmt spám sem liggja fyrir munu tekjur borgarsjóðs minnka frá upphaflegri áætlun. Er ekki ósennilegt að þær dragist saman um tvo milljarða á þessu ári og er það í fyrsta sinn í mörg ár sem það gerist,“ sagði Vilhjálmur. „Það verður eitthvað dregið úr framkvæmdum,“ sagði Vilhjálmur jafnframt.

Hvar á að skera niður?

Staða borgarsjóðs er nokkuð betri en staða borgarinnar allrar með dótturfélögum, en heildarskuldir borgarinnar með dótturfélögum eru um 155 milljarðar króna. Stærstur hluti skuldanna eru skuldir Orkuveitu Reykjavíkur.

Reykjavíkurborg hefur skuldbindingar gagnvart byggingu skóla og íþróttamannvirkja; nauðsynlegt er samt fyrir borgina að lækka útgjöld og auka tekjur til að mæta versnandi stöðu borgarsjóðs. Kostnaður vegna nýrra kjarasamninga nemur 4–4,5 milljörðum króna á næsta ári og kostnaður vegna aðfanga hefur einnig hækkað mikið. Ein leið sem er fær er að hækka þjónustugjöld á íbúa, en engin ákvörðun hefur verið tekin um slíkt.

Borgin gæti selt eignir en eftirspurn eftir lóðum hefur dregist mikið saman og aðgangur að lánsfé á innlendum markaði er takmarkaður. Uppsagnir starfsfólks er önnur leið en forsvarsmenn nýs meirihluta hafa látið hafa eftir sér að uppsagnir séu ekki á dagskrá. Það liggur því beinast við að draga þurfi úr framkvæmdum ef ekki kemur til uppsagna eða hækkunar þjónustugjalda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert