Stofnvísitala rækju svipuð og í fyrra

Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að hámarksafli úthafsrækju verði 7 þús. …
Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að hámarksafli úthafsrækju verði 7 þús. tonn fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. mbl.is/Jim Smart

Fyrstu útreikningar árlegrar stofnmælingar Hafrannsóknastofnunarinnar á úthafsrækju fyrir norðan og austan land benda til þess að heildarvísitala stofnstærðar sé svipuð í ár og í fyrra og sé að nálgast vísitöluna árið 1999 sem var sú lakasta á tíunda áratugnum.

Vísitalan var lægst árið 2004 en hækkaði lítillega til ársins 2007. Meira var af rækju á miðunum norðan lands miðað við undanfarin fjögur ár en aftur á móti var minna af rækju austan lands. Á aðalrækjuveiðisvæðinu, Norðurkantur – Grímsey, hefur vísitalan hækkað um 42% miðað við árið 2004. Rækjan var stór eða svipuð og árin 2006 og 2007.

Meira fékkst af þorski í þessari rækjukönnun en árið 2007 eða svipað magn og árið 2006. Mest fékkst af þorski við Norðaustur- og Austurland en minna á miðunum vestan 18. gráðu vestur lengdar. Helstu nýliðunarsvæði rækju eru austan 18. gráðu vestur lengdar og gæti því afrán þorsks á smárækju verið talsvert á þessu ári eins og verið hefur nokkur undanfarin ár eftir að þorski fjölgaði á úthafsrækjumiðunum.

Bráðabirgðaútreikningar sýna að nýliðun rækju er enn mjög slök ef miðað er við allt svæðið.

Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að leyfilegur hámarksafli úthafsrækju verði 7 þús. tonn fyrir fiskveiðiárið 2008/2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert