Stór mál á stuttu þingi

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Þorkell

Búast má við að nokkur stór, þýðingarmikil og umdeild mál verði tekin upp á ný á framhaldsfundum Alþingis sem hefjast 2. september næstkomandi. Þinghaldið er nýjung í störfum Alþingis því skv. þingskaparlögunum er nú gert ráð fyrir nokkrum þingfundardögum í september áður en þinginu sem frestað var í maí, verður formlega slitið.

Framhaldsfundir Alþingis hefjast þriðjudaginn 2. september og hefur nú verið ákveðið að þingfundum ljúki tæpum tveimur vikum síðar eða 12. september. Meðal stærstu frumvarpa af hálfu ríkisstjórnarinnar sem ekki náðust í gegn fyrir sumarið er sjúkratryggingafrumvarp heilbrigðisráðherra, sem lagt var fram í vor. Stjórnarliðar sem rætt var við virðast á einu máli um að allar líkur séu á að það verði nú afgreitt sem lög. Frumvarpið beið þriðju umræðu þegar fundum var frestað í vor. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar, segir stefnt að því að afgreiða frumvarpið. Full samstaða sé milli stjórnarflokkanna um þetta mál.

Annað stórt mál sem var látið bíða í vor er skipulagsfrumvarp umhverfisráðherra, með hinum umdeildum ákvæðum um landsskipulag. Ekki er útlit fyrir að takist að leysa ágreining um landsskipulagið og ósennilegt er að takist að afgreiða það nú, skv. heimildum Morgunblaðsins. Þá er því ósvarað hvort reynt verður að afgreiða frumvarpið um innleiðingu matvælalöggjafar ESB áður en þinginu verðurr slitið. Flestum ber saman um að ástandið í efnahagsmálum muni setja sterkan svip á þessa fundardaga Alþingis. Ganga má út frá því sem vísu að fram fari heitar umræður um efnahagsmál sem efnt verði til af hálfu stjórnarandstöðunnar og að stjórnarandstæðingar muni jafnframt nota tækifærið til að beina fjölda fyrirspurna til ráðherra og þingmanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert