Ólafur F. Magnússon sakaði sjálfstæðismenn um svik og lygar á borgarstjórnarfundi í morgun. Oddviti Samfylkingarinnar segir útreiðina sem Ólafur hafi fengið verða dæmda af sögunni sem einhvern ljótasta leik sem hafi verið leikinn á sviði stjórnmála.
Fjórða borgarstjórnin á kjörtímabilinu tók formlega við völdum í morgun. Það sauð á mörgum þótt ekki syði uppúr en ungliðahreyfingar allra flokka höfðu hvatt sína ungliða til að mæta, ýmist til að mótmæla eða fagna.
Samfylkingin og vinstri græn höfðu sagt sínu fólki að mótmælin yrðu fyrir utan en framsóknarmenn og sjálfstæðismenn vildu að sínir menn fylgdust með af þingpöllum.
Fremur dræm þátttaka var í mótmælunum fyrir utan en þau hófust hálftíma áður en fundur átti að hefjast. Ungliðar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks voru heldur ekki margir, né ungir.
Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna sagðist ekki hafa átt von á mikilli þátttöku. Hún óskaði hinsvegar pólitískum andstæðingum til hamingju með þátttökuna og sagðist ekki hafa séð betur en að allur Framsóknarflokkurinn hefði mætt á þingpallana, allavega hafi verið minnst tuttugu mætt þangað.
Ólafur F. Magnússon fyrrum borgarstjóri var ómyrkur í máli um fyrrum samstarfsflokkinn og sagði vélráð, svik og pretti hafa einkennt fyrrverandi samstarfsflokk sinn og í Valhöll teldu menn að þeir hefðu leitt hann til pólitískrar slátrunar í þriðja sinn.
Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar tók undir þetta og sagði framkomuna við Ólaf F. Magnússon vera fordæmalausa og verði í sögunni dæmd sem einhver ljótasti leikur sem nokkurn tímann hafi verið leikinn á sviði stjórnmálanna.