Af álfum og hákarli

Ólafur fagnar ákaflega eftir sigur á Pólverjum um daginn.
Ólafur fagnar ákaflega eftir sigur á Pólverjum um daginn. Mbl.is/Brynjar Gauti

Álfar munu fagna ef Ísland vinnur gullið á sunnudag og allir borða hákarl og drekka brennivín þrátt fyrir að það sé vont. Ekkert gerist ef maður sér hlutina ekki fyrir sér og Óli handboltafyrirliði hefur íhugað að ganga í Búddaklaustur. Bandarískur fréttaritari skrifar um íslenska handboltalandsliðið.

Fréttaritari bandaríska blaðsins Washington Post sem staddur er í Peking skrifar um leikana á vef blaðsins, Washingtonpost.com. Í gær tekur hann fyrir íslenska landsliðið í handbolta en velgengni liðsins hefur vakið talsverða heimsathygli.

Þegar Steinberg fór að hitta íslenska liðið í gær hafði hann þrjár spurningar sem hann langaði að spyrja.

  1. Álfar. Eru þeir vinsælir á Íslandi?„Ah, ja, ja, ja,” svarar Guðjón Valur Sigurðsson. „Sumir trúa að þeir búi í fjöllum. Sumir trúa því og aðrir ekki. Mér sjálfum er sama. En ef við vinnum verðlaunapening þá er ég viss um að þeir fagna með okkur.”
  2. Áfengið sem tengist sjávarréttum. „Þegar við borðum hákarl drekkum við brennivín,” segir Sigfús Sigurðsson, og á þar við brennivínið sem kallað er Svarti dauði.. „Við setjum það í frysti í nokkrar vikur þar til drykkurinn verður þykkur. Svo drekkurðu það með hákarli sem búið er að verka á ákveðinn hátt, það er ekki hægt að lýsa því, en það er hræðileg lykt af honum.” Fréttamaðurinn spyr þá hvort þetta sé gott? „Nei,” svarar Sigfús. „En þú verður að innbyrða þetta. Þannig er það bara.”
  3. Áhuginn heima fyrir: Hinir íslensku íþróttamennirnir þrettán hafa lokið keppni án verðlauna en á vefnum segir að handboltinn sé hvort eð er stærsti viðburðurinn. Steinberg hitti að máli Hrafnkel Kristjánsson, íþróttafréttastjóra RÚV, og fékk að vita að um 60% þjóðarinnar hefði fylgst með leiknum gegn Dönum og að allir sem hefðu verið að horfa á sjónvarp hefðu horft á leikinn.

Steinberg segir að þetta sé þó allt saman ómerkilegt í samanburði við fyrirliðann, Ólaf Stefánsson, sem sé sennilega áhugaverðasti íþróttamaður sem hann hafi talað stuttlega við.

Ólafur deili lífi sínu í þrjú svið: handboltann, en Óli spilar með spænsku deildinni og er einn af vinsælustu íþróttamönnum Íslands, fjölskylduna „Það er konan og börnin sem maður les fyrir á kvöldin þegar kominn er háttatími“ og síðan yfirnáttúrulega sviðið.

Í greininni segir að fyrirliðinn hafi gráðu á mannvísindasviði, hafi velt fyrir sér að ganga í Búddaklaustur, hafi lesið bækur eftir marga franska heimspekinga 20. aldarinnar og mikla hugsuði eins og Félix Guattari og Gilles Deleuze. Þá segi fyrirliðinn að hann sé tilvistarsinni. Hann tali einnig um skammtafræði, hafi lesið bækur Karen Armstrong um goðafræði og sem lesningu á ólympíuleikunum hafi hann valið skáldsögu í þremur hlutum sem heitir Man Without Qualities og er eftir austurríska höfundinn Robert Musil.

Ólafur segir Steinberg líka að hann hafi séð fyrir sér gullið í langan tíma. ,„Það er reyndar tilraun hjá mér, hvort hugsanir og tilfinningar geti birst í efnisheiminum...það er mikilvægt að sjá hlutina fyrir sér á myndrænan hátt. Ég held að ekkert geti gerist nema að maður sjái hlutina fyrir sér í einhvern tíma. Ekkert gerist af tilviljun.“

Sjá greinina í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert