Karl á fertugsaldri var handtekinn í Háaleitishverfi í gærkvöldi en sá var með ýmsar tegundir af fíkniefnum í fórum sínum. Maðurinn reyndi að komast undan þegar lögreglan kom á vettvang og tók til fótanna en var hlaupinn uppi af fótfráum laganna vörðum.
Að sögn lögreglu tafði það för hins ólöghlýðna borgara þegar frekar hátt grindverk varð fyrir honum á flóttanum, en efst á því var gaddavír og festist maðurinn í honum þegar hann reyndi að klifra yfir.
Manninum var hjálpað niður af grindverkinu og síðan ekið á lögreglustöð þar sem hann var færður í fangageymslu.
Minniháttar skemmdir urðu á fatnaði flóttamannsins sem jafnframt hruflaðist lítillega á þessu brölti á gaddavírnum.