Forsætisráðherra: Mikið afrek og glæsilegt

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir sigur íslenska landsliðsins í handbolta á Spánverjum mikið afrek og glæsilegt. Forsætisráðherra var staddur á Hellu þar sem Landbúnaðarsýningin var sett. Í samtali við mbl.is sagði Geir að setningarathöfninni hafi verið frestað um klukkustund og stóru tjaldi komið upp þar sem fjöldi fólks horfði á leikinn.

Geir er að fara í opinbera heimsókn til Grikklands og Albaníu í næstu viku og verður því ekki á landinu þegar liðið kemur heim. Hann verður þó á Íslandi á sunnudag og ætlar að horfa á leikinn og segir að hugurinn verði í Peking hjá íslenska landsliðinu þar sem hann hafi ekki tök á að vera viðstaddur úrslitaleikinn.

„Ég er mjög stoltur af liðinu en þetta er stórkostlegur árangur hjá íslenska liðinu og ótrúlega gott lið þar á ferð. Þeir hreinlega rúlluðu yfir Spánverjana allt frá fyrstu mínútu," sagði Geir í samtali við mbl.is.

Án þess að vilja draga úr væntingum Íslendinga um að íslenska landsliðið hreppi gull á Ólympíuleikunum í Peking þá segir hann að það megi alls ekki vanmeta það að fá silfur enda sé það stórkostlegt að ná þeim árangri á Ólympíuleikum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert