Forsetar Íslands og Kína á fundi

Ólafur Ragnar og Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, fagna sigri Íslands …
Ólafur Ragnar og Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, fagna sigri Íslands á Póllandi í handboltanum á miðvikudag. mbl.is/Brynjar Gauti

Þeir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Hu Jinatao, forseti Kína, áttu fund í Peking í morgun. Að sögn Xinhua fréttastofunnar óskaði Hu Ólafi Ragnari til hamingju með nýtt kjörtímabil og þakkaði honum fyrir stuðning íslensku þjóðarinnar við ólympíuleikana í Peking.

Hu sagði, að sögn Xinhua, að Ólafur Ragnar, sem væri gamall vinur kínversku þjóðarinnar, hefði lagt mikið að mörkum til að styrkja tengsl þjóðanna. „Við erum afar þakklát fyrir þetta starf," sagði hann.

Ólafur Ragnar sagðist hafa sótt Special Olympics, heimsleika seinfærra og þroskaheftra, í Shanghai í október og væri afar ánægður með að vera á ólympíuleikunum í Peking. Þetta er í fyrsta skipti, sem forseti Íslands sækir ólympíuleika.

Þá óskaði Ólafur Ragnar, að sögn Xinhua, kínverskum stjórnvöldum til hamingju með vel heppnaða skipulagningu Special Olympics og leikanna í Peking.  

Auk forseta Íslands sátu fundinn Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra, Örnólfur Thorsson forsetaritari, starfsmenn sendiráðs Íslands, Ólafur Rafnsson forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Líney R. Halldórsdóttir framkvæmdastjóri sambandsins og Magnús Bjarnason formaður Viðskiptaráðs Íslands og Kína.

Auk Hu Jintao forseta Kína og Yang Jiechi utanríkisráðherra sátu fundinn nokkrir af æðstu ráðamönnum Kína.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert