„Við vorum rosalega heppnar“, segir Anna María Björnsdóttir, 17 ára ökumaður bíls sem hafnaði út í sjó eftir að hún missti stjórn á honum í lausamöl á nýlagðri klæðningu í Engidal í gærkvöldi. Anna María ásamt tveimur farþegum tókst af miklu snarræði að koma sér út úr bílnum og í land áður en hann fór á bólakaf.
„Bíllinn byrjaði að rása í mölinni enda
hefur greinilega verið nýbúið að leggja á veginn og mjög mikið af möl,
mun meira en er núna. Ég reyndi að beygja í þá átt sem bíllinn var að
rása og steig svo örlétt á bremsuna og bíllinn fór beint út af veginum.
Við lentum fyrst á húddinu og fórum hring í loftinu og lentum svo aftur
á húddinu og svo sem betur fer féll bíllinn á dekkin í vatninu. Við
tókum sem sagt tvær stunguveltur fram fyrir okkur,“ sagði Anna María í
samtali við Bæjarins besta.
„Bíllinn klesstur að framan og að aftan en
ekkert á þakinu og við vorum mjög heppnar að bíllinn skildi lenda á
dekkjunum í sjónum. Afturrúðan brotnaði og stelpurnar gátu skriðið þar
út en ég skrúfaði niður fremri rúðurnar á meðan bíllinn var í loftinu
og komst þar út, en það er gert rafrænt svo það er ekki víst að ég
hefði getað gert það eftir að bíllinn lenti. Við syntum í land og þegar
við vorum komin upp á veginn var bíllinn nær kominn á kaf,“ bætir Anna
María við.
Anna María segir þær vinkonurnar þrjár vera í miklu
sjokki en sem betur fer meiddust þær ekki að ráði. „Við fengum hnykk út
af beltunum en við vorum upp á sjúkrahúsi og það verður allt í lagi með
okkur. Við eigum samt að taka því rólega því við erum með bólgur í baki
sem eiga að versna á næstu dögum en við erum bara ánægðar að ekki fór
verr.“