Undirbúningur er langt kominn vegna útboðs á sérleyfum til olíuleitar við Ísland sem fram á að fara í janúar nk. Norska olíufélagið StatoilHydro og nokkur bresk fyrirtæki eru í hópi fyrirtækja í olíuiðnaðinum sem hafa til skoðunar að taka þátt í útboðinu að því er segir í frétt dagblaðsins The Times í Bretlandi í gær.
Fram kemur að fyrirhugað sé að bjóða út um 100 sérleyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á umræddu svæði, sem er á norðanverðu Drekasvæðinu. Íslendingar geri sér vonir um að laða megi að fjárfesta, m.a. úr hópi stærstu olíufyrirtækja heims, til að taka þátt.
Ekkert liggur enn fyrir um hvaða fjárhæðir kunni að fást við útboð sérleyfanna. „Þetta er opið útboð og það er alveg óvíst hvað við fáum upp í hendurnar. Það þarf ekki að vera í formi ákveðinna greiðslna heldur getur verið loforð um að bora tiltekinn fjölda holna en hver hola felur í sér fjárskuldbindingu upp á um 100 milljónir dollara (rúml. 8 milljarða ísl. kr.) á þessu svæði,“ segir Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun.