Reykingar hafa veruleg áhrif á ýmsa
augnsjúkdóma og þrefalda daglegar reykingar í meira en 20 ár hættuna á
skýmyndun á augasteini og þar með þörfina á skurðaðgerð. Þeir sem verða fyrir hvað mestri geislun sólar eru mun líklegri til að fá ský á augasteini.
Þá auka reykingar
frumudauða í innþekju hornhimnu sem getur valdið því að græða þurfi nýja
hornhimnu úr látinni manneskju í viðkomandi og í þriðja lagi auka reykingar
hættuna á augnbotnahrörnun á háu stigi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Háskóli Íslands sendir frá sér.
Augnrannsóknin var fyrst framkvæmd árið 1996 og var þá tekið slembiúrtak Reykvíkinga 50 ára og eldri. Rannsóknin var svo endurtekin á sömu einstaklingum árið 2001 . Eftir helgi munu rannsóknir þessar halda áfram en um er að ræða rannsóknir á hundruð Íslendinga.
Gríðarlega flókinn og dýr hátæknibúnaður hefur verið fluttur til landsins sem gerir rannsóknirnar mögulegar en að þeim standa Japanar og Bretar auk Íslendinga.
Augnrannsókn Reykjavíkur hefur vakið athygli vísindamanna um allan heim og hafa greinar sem kynna niðurstöður rannsóknarinnar birst í flestum þekktustu vísindaritum heims.
Friðbert Jónasson stýrir rannsókninni, en hann er yfirlæknir á augndeild Landspítalans og prófessor við Háskóla Ísland.
Að sögn Friðberts hafa verið könnuð áhrif útfjólublárrar geislunar frá sólinni í rannsókninni og fannst að megin áhrif á augnheilsu eru þau að áhætta þeirra sem fengu mesta geislun á að fá ský á augasteini þrefaldaðist.
Veruleg vörn var í öllum tegundum gleraugna.
Að útfjólublá geislun sólar valdi ský á augasteinum hefur verið fundið í öðrum löndum, þar sem mikið meira er um útfjólubláa geislun frá sól en hér, en athygli vakti að í landi með ekki meiri útfjólubláa geislun en Ísland væri um há marktæk áhrif að ræða.