„Ég vil fá gullið og íslenska þjóðsönginn á sunnudaginn,“ sagði Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, við Morgunblaðið í gær. Liðið hefur náð einstæðum árangri á Ólympíuleikunum í Peking. Það lagði Spánverja í undanúrslitum í gær, 36:30, og tryggði sér með því verðlaunasæti á leikunum. Í fyrramálið getur það brotið blað og fært Íslandi fyrstu gullverðlaunin í sögunni en þá mætir það Frökkum í úrslitaleik sem hefst klukkan 7.45 að íslenskum tíma.
Það hefur aldrei áður gerst í sögu Ólympíuleikanna að lið frá jafnfámennri þjóð komist í verðlaunasæti í flokkaíþrótt. Aldrei áður hefur lið frá ríki með færri en eina milljón íbúa spilað úrslitaleik í handknattleik, körfuknattleik, knattspyrnu, blaki, sundknattleik, hokkí eða hafnabolta á leikunum.
Leikmenn liðsins og aðstandendur hafa að mestu haldið ró sinni og yfirvegun og í viðtölum við þá í Morgunblaðinu í dag kemur vel fram að þeir telja sig ekki hafa náð settu marki ennþá.
„Verkefninu er ekki lokið,“ segir Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari. „Við stefnum á það að íslenski fáninn verði dreginn að húni í miðjunni,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson.