Minkur gerði sig heimakominn í Grænlandsleið í Grafaholti í dag. Íbúum tókst að fanga minkinn og loka inni í búri. Hefur hann nú verið fjarlægður af borgaryfirvöldum.
Menn urðu minksins fyrst varir um klukkan fjögur í nótt. Að sögn Guðmundar Jóhannssonar, íbúa á Grænlandsleið, gerði minkurinn sig þá líklegan til að komast inn um bréfalúgu eins hússins en varð frá að hverfa. Ekkert sást svo til hans fyrr en í hádeginu í dag og olli heimsóknin miklu uppnámi í götunni.
Guðmundur segir að börn og fullorðnir hefðu hlaupið um með allskonar barefli og reynt að vinna á dýrinu. Dýrindis grillkjöt hafi verið sett í hundabúr en ekki freistaði það minksins.
Loks, eftir um klukkutíma baráttu tókst að handsama dýrið og setja það í búrið.
Haft var samband við meindýraeyði borgarinnar sem kom og fjarlægði minkinn. Lauk þar með þessu óvænta atriði menningarnætur í Grafarholti.