Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg 25 verður opið upp á gátt á Menningarnótt Reykjavíkur.
„Við viljum nota þetta tækifæri til að kynna almenningi þá fjölþættu starfsemi sem fer fram í ráðuneytinu,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.
„Utanríkisþjónustan er í ákveðinni fjarlægð frá almenningi og við viljum færa hana nær fólki. Við erum stolt af því að vera fyrst ráðuneyta til að efna til opins húss. Þetta var hugmynd sem kviknaði hjá ágætri konu sem ég átti spjall við úti í bæ. Ég hafði lengi haft þá hugmynd að efna til opins húss og fannst stórsnjallt að gera þetta á Menningarnótt.“
Ingibjörg Sólrún ætlar að vera í ráðuneytinu, auk annarra starfsmanna, og upplýsa gesti. Þar verður margt á boðstólum.
„Ég tel að fólki þyki til dæmis áhugavert að kynnast störfum Íslensku friðargæslunnar,“ sagði Ingibjörg Sólrún. „Þarna verða friðargæsluliðar sem geta sagt frá sínum störfum. Eins er áhugavert fyrir fólk að kynnast því sem við leggjum af mörkum í þróunarsamvinnu víða um heim og hvernig að því er staðið. Mér finnst að þetta hvort tveggja sé nokkuð sem við Íslendingar eigum að vera stoltir af.“