Þeir Haukur Guðlaugsson, Jón Stefánsson og Marteinn Hunger Friðriksson urðu í dag fyrstir til að hljóta Liljuna, ný tónlistarverðlaun Þjóðkirkjunnar. Verðlaunin eru veitt fyrir ómetanlegt starf í þágu kirkjutónlistar á Íslandi.
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, afhenti þeim Hauki, Jóni og Marteini verðlaunin í Hallgrímskirkju við upphaf Sálmafoss 2008, sem er sjö klukkustunda löng tónlistardagskrá sem kórar og organistar íslensku kirkjunnar halda upp og er hluti af Menningarnótt í Reykjavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Við
eigum margt að þakka fyrir þegar við heiðrum þessa þrjá menn. Við horfum til
þeirra dýrmætu ávaxta sem af verkum þeirra hafa sprottið. Þeir hafa unnið uppeldisstarf
sem skilað hefur miklum og ómetanlegum arfi,“ sagði biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson.
Um verðlaunahafana
Haukur Guðlaugsson fæddist árið 1931. Hann lærði orgelleik í Þýskalandi hjá Försteman og á Ítalíu þar sem kennari hans var Fernando Germani. Haukur starfaði sem söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar árin 1974-2001. Í tíð Hauks jókst námskeiðahald á vegum söngmálastjóra til muna. Hann lagið sig einnig mikið fram við að styrkja kórastarf á landsbyggðinni. Þá var útgáfustarfsemi mjög öflug í hans tíð.
Jón Stefánsson organleikari og kórstjóri fæddist 5. júlí 1946. Hann nam orgel meðal annars við tónlistarháskólana í München og Vínarborg. Jón hefur starfað sem organleikari og kórstjóri í Langholtskirkju frá 1964. Hann hlaut Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín árið 1994.
Marteinn Hunger Friðriksson fæddist 24. apríl 1939. Hann lauk A-prófi við Tónlistarháskóla F. Mendelssohn í Dresden 1964 með orgel sem aðalhljóðfæri. Marteinn hefur verið dómorganisti og stjórnandi Dómkórsins frá árinu 1978 og hefur auk þess um árabil verið mikilvirkur tónlistarmaður.