Flutningalest með um 40 nýja Volkswagen bíla kom til Reykjavíkur fyrir hádegið í dag. Bílarnir eru fluttir hingað til lands með ferjunni Norrænu á vegum þýsku Volkswagenverksmiðjanna í tengslum við kynningu á nýrri kynslóð Volkswagen Golf bíla sem haldin verður hér á landi í næsta mánuði fyrir um 1500 erlenda blaða- og fréttamenn.
Að sögn Heklu hf. er náttúrufegurð landsins meginástæða þess að Volkswagen ákvað að kynna nýja kynslóð VW Golf á Íslandi. Allir helstu stjórnendur Volkswagen verða viðstaddir heimsfrumsýninguna og verða alls um 200 bílar fluttir til landsins vegna kynningarinnar. Ríflega 100 þeirra verða af sjöttu kynslóð VW Golf og einnig verða fluttir inn í tengslum við viðburðinn um 40 VW Pheaton lúxusbílar, VW Touareg jeppar og VW Passat R36 ásamt fleiri gerðum Volkswagen.Von er á 1500 blaða- og fréttamönnum frá um 50 löndum eru væntanlegir vegna frumsýningarinnar á nýja Golfinum í september. Þeir koma hingað í 80 manna hópum til landsins, frá 8. til 26. september, og staldrar hver hópur hér við í tvo daga. Komið verður upp fræðslu- og sýningaraðstöðu í Bláfjöllum og þaðan verður farið í reynsluakstur á nýju bílunum um næsta nágrenni, að Gullfossi og Geysi, Kerinu, Nesjavöllum og Bláa lóninu.