Yfirlýsing frá hagsmunasamtökum nemenda

Framhaldsskólanemar á Austurvelli.
Framhaldsskólanemar á Austurvelli. mbl.is

Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskólanema segir að hagsmunagæsla þurfi ekki að vera kostnaðarsöm til að skila árangri. Aðildarskólar ráðsins tillheyra ekki Sambandi íslenskra framhaldsskólanema. Ráðinu finnst að nemasamtök af þessu tagi eigi ekki að taka afstöðu í umdeildum pólitískum málum.

Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskólanema hefur sent frá sér stefnuyfirlýsingu skólaársins 2008-2009.

Þar segir:

Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskólanema grundvallast á þeirri hugsjón að hagsmunagæsla framhaldsskólanema þurfi ekki – og eigi ekki - að vera kostnaðarsöm til að skila árangri. Jafnframt grundvallast HÍF á virðingu fyrir sérkennum og sjálfstæði hvers aðildarskóla fyrir sig. Aðildarskólar HÍF tilheyra ekki Sambandi íslenskra framhaldsskólanema.

Það er óeðlilegt að samtök sem gefa sig út fyrir að tala fyrir munn allra framhaldsskólanema taki afstöðu í umdeildum pólitískum málum. Hagsmunir og lífsskoðanir allra framhaldsskólanema á landinu fara ekki alltaf saman og því er eðlilegast fyrir samtök á borð við HÍF að láta pólitísk álitamál afskiptalaus, en standa þeim mun öflugri vörð um þau mál sem raunveruleg samstaða ríkir um.

Meðal þess sem HÍF hyggst beita sér fyrir er:

Hagsmunagæsla fyrir nemendur allra aðildarskóla sinna. Á undanförnum árum hafa yfirvöld lagt fram tillögur sem hugsanlega hefðu skert gæði menntunar og vegið að rekstrarsjálfstæði framhaldsskóla og nemendafélaga á landinu. HÍF kemur til með að fylgjast náið með breytingum á umhverfi framhaldsskólanema og bregðast við þegar hagsmunum þeirra er ógnað.

Sanngjarnar greiðslur og ferðastyrkir til framhaldsskóla vegna þátttöku í spurningakeppninni Gettu betur. Gettu betur hefur með árunum orðið eitt vinsælasta sjónvarpsefni landsins. Það er því eðlilegt að sigursælustu skólarnir fái að njóta þeirra vinsælda sem þeir afla RÚV með þátttöku sinni. Stýrihópur skipaður fulltrúum framhaldsskólanna á áfram að standa að skipulagningu keppninnar í samstarfi við umsjónaraðila hennar.

Efling og sjálfstæði mælskukeppninnar MORFÍS. Málinu, ræðukeppni grunnskóla Reykjavíkur, var útvarpað á Rás 2 með góðum árangri. Það er engin ástæða til að ætla annað en að hægt sé að gera úrvalsdagskrárefni úr MORFÍS með sama hætti. MORFÍS-ráð á áfram að vera skipað fulltrúum úr framhaldsskólunum og starfa sjálfstætt að skipulagningu keppninnar.

Í Hagsmunaráði framhaldsskólanema er að finna skólana Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann í Reykjavík, Verzlunarskóla Íslands, Menntaskólann í Hamrahlíð og Menntaskólann í Kópavogi. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert