Árangur Íslands skiptir miklu máli

Þorgerður Katrín skoðar verðlaunapening Sturlu Ásgeirssonar.
Þorgerður Katrín skoðar verðlaunapening Sturlu Ásgeirssonar. mbl.is/Brynjar Gauti

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, var viðstödd úrslitaleik Íslending og Frakka á ólympíuleikunum í Peking í dag. Þorgerður segir að árangur landsliðsins eigi eftir að skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag.  Þá eigi íþróttir á Íslandi eftir að eflast í kjölfarið.

„Ég hef rætt við vini mína í Þýskalandi og Spáni og það eru flestir á þeirri skoðun að Ísland og Frakkland hafi verið með bestu liðin á þessu móti."

Þorgerður sagði ótrúlegt, að Íslendingar hefðu unnið silfurverðlaun og það væri einstakt afrek.

„Við eigum að vera stolt en kannski er það ekki nógu stórt orð til þess að lýsa því hvernig mér líður. Strákarnir eiga mikið inni á hjá okkur sem þjóð. Til skemmri tíma eru það tilfinningar og ástríða sem standa upp úr en til lengri tíma litið þá eru ofboðsleg verðmæti sem felast í þessu silfri. Þá sérstaklega fyrir unga fólkið og börnin okkar. Skilaboðin sem liðið sendir til þeirra inni á vellinum og líka í viðtölum eftir leikina. Þetta er allt úthugsað hjá þeim og það er ekki bara Ólafur Stefánsson sem er heimspekingur í þessu liði," sagði Þorgerður.

Nánar er rætt við hana í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert