Foreldrum á Hvaleyrarholti er illa brugðið vegna deiliskipulags. Bæjaryfirvöld hyggjast hleypa umferð af Reykjanesbraut í gegnum íbúabyggð og fram hjá grunnskóla og leikskóla. Reykjanesbraut er ein umferðarþyngsta gata landsins. Í umhverfismati segir að þessi aukna umferð geti haft neikvæð áhrif á öryggi gangandi vegfarenda, sérstaklega í grennd við Hvaleyrarskóla. Bæjarstjóri segir að það verði fyrst og fremst íbúar sem muni nýta sér leiðina.
Foreldrafélag Hvaleyrarskóla hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna deiliskipulags vegna tengingar frá mislægum gatnamótum en þar er gert ráð fyrir að tenging verði nálægt grunnskólanum Hvaleyrarskóla og leikskólunum Álfasteini og Smáralundi.
Í bréfi sem samtökin hafa sent frá sér segir að í Hvaleyrarskóla séu nú sex hundruð börn og að ljóst sé að aukin umferð, beint inn af hraðbraut, muni ógna verulega öryggi þessara barna og annarra gangandi vegfarenda. Það sé vel þekkt að ökumenn eigi erfitt með að draga úr hraða þegar komið sé af hraðbrautum inn í íbúabyggð.
Þá sé það fyrirséð að umferð flutningabíla og annarra þungavinnuvéla um hverfið muni aukast til muna vegna nálægðar við iðnaðarhverfi og höfnina.
Bæjarstjórn hafi áður fjallað um mislæg gatnamót í grennd við Hvaleyrarskóla og komist að þeirri niðurstöðu í samráði við íbúa að opna ekki fyrir aukna umferð frá Reykjanesbraut um Hvaleyrarholt. Árið 2006 hafi bæjarstjóri fundað með íbúum hverfisins, foreldrum, foreldraráði og stjórnendum Hvaleyrarskóla vegna frágangs Krísuvíkurvegar og breikkun Reykjanesbrautar og var þá horfið frá þessum tillögum og ofan á varð að tryggja áframhaldandi umferðaröryggi í hverfinu.
Að mati foreldraráðs hafa forsendur frá árinu 2006 ekki breyst og ekki talin ástæða til að stórauka umferð um Suðurbraut frá því sem nú þegar er.
Þá gagnrýnir félagið að engar athuganir hafi farið fram vegna aukningar á hávaða eða mengun vegna stækkunar.
Fyrst og fremst notuð af íbúum
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir málið búið að vera í vinnslu og að það verði tekið fyrir á bæjarráðsfundi næstkomandi þriðjudag.
„Við höfum mætt á nokkra fundi með íbúum og kynnt málið því það hefur alltaf verið gert ráð fyrir tengingu þarna vegna mislægra gatnamóta. Við höfum bæði fengið jákvæð og neikvæð viðbrögð á þessum fundum,” segir Lúðvík.
„Við gerum ráð fyrir ákveðnum mótvægisaðgerðum, eins og hraðahindrunum, og í áliti kemst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að þessar aðgerðir séu fullnægjandi.”
Lúðvík sagðist ekki telja að verið væri að færa meiri umferð framhjá skólunum en ráða mætti við enda yrði þetta fyrst og fremst umferð íbúa á svæðinu.
„Á Völlunum er verið að byggja upp ýmsa þjónustu, þarna er til dæmis stórt íþróttahús og verið er að byggja sundlaug. Við viljum auðvelda aðgengi íbúa að þessari þjónustu því þessi þrönga leið sem liggur um gatnamót Strandgötu og Suðurbrautar, er ófullnægjandi.“
Lúðvík taldi ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af umferð þungavinnuvéla um nýju götuna því þarna yrðu bæði þungatakmarkanir og hraðahindranir.
Foreldrasamtök Hvaleyrarskóla hafa boðað til opins fundar í Hvaleyrarskóla á mánudagskvöldið klukkan 20.
Lúðvík Geirssyni og Gísla Valdimarssyni, formanni Skipulags- og byggingarráðs, hefur verið boðið á fundinn.