Tveir hundar hafa horfið með stuttu millibli í Grímsnesi og spyrja eigendur sig þess hvort hundaþjófar séu á ferðinni.
Eigandi íslensks fjárhunds hafði samband við Mbl og sagði farir sínar ekki sléttar. Hundur hans, íslenskur fjárhundur, hefði horfið af heimili sínu að Miðengi í Grímsnesi um hádegið í gær.
Hundurinn væri mjög blíður og mannelskur og gæti vel hafa farið inn í bíl hjá ókunnugum.
Það sem gerði málið enn undarlegra væri að síðasta fimmtudag hefði horfið annar hundur af svæðinu. Væri það Siberian husky sem byggi á Miðdal, rétt við Laugarvatn.
Það telst ekki daglegt brauð að hundar hverfi sporlaust og nú hefðu tveir hundar horfið með tveggja daga millibili. Eigendur velta því nú fyrir sér hvort einhverjir óprúttnir aðilar sem stela hundum séu á ferðinni.
Sverrir, eigandi íslenska hundsins sem heitir Prins biður alla þá sem kynnu að hafa upplýsingar um málið að hafa samband við sig í síma 662 4422.