Yfir tíu þúsund manns hafa heimsótt Landbúnaðarsýninguna og Töðugjöldin á Hellu. Hátíðin hófst á föstudag og lýkur í dag. Í dag verður til dæmis hægt að sjá bændaglímu og litasýningu sauðfjár.
Fjölmenni var á kvöldvöku í gærkvöldi sem lauk með varðeldi og flugeldasýningu. Árla morguns var aftur mættur hópur sýningargesta í Rangárhöllina, í þetta skiptið til að fylgjast með úrslitaleik Íslendinga og Frakka í handbolta á Ólympíuleikunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Veður var mun betra á Hellu nú í morgun en það var í gær, norðaustan gola, þurrt og skýjað en annað slagið brýst sólin fram. Að sögn Jóhannesar Hr. Símonarsonar, framkvæmdastjóra Landbúnaðarsýningarinnar, er aðsóknin framar öllum vonum og sérstaklega ánægjulegt að fólk hafi ekki látið votviðri síðustu daga á sig fá.
Dagskrá þessa síðasta sýningardags er fjölbreytt en hún hófst með gangtegundasýningu íslenska hestsins og litasýningu sauðfjár. Eftir hádegi verður útimessa þar sem séra Guðbjörg Arnardóttir messar og kirkjukórar Odda- og Þykkvabæjarsókna syngja.
Meðal annarra atriða á lokadegi sýningarinnar eru Bændaglíma Suðurlands, skeifnasmíði, dómslýsing á stóðhesti og smalahundasýning.
Sýningin teygir anga sína út fyrir aðalsýningarsvæðið, því kúabændur á bæjunum Bjólu, Helluvaði og Selalæk í Rangárþingi ytra og hrossaræktendur á Feti bjóða gesti velkomna til að kynna sér bústörfin á vettvangi. Búin eru opin kl. 16-19 í dag.