Hótel Akureyri, sem stendur við Hafnarstræti, og var nokkuð umdeilt síðustu misseri, fékk í gær heldur óvenjulega andlitslyftingu þegar það var málað alhvítt. Var þetta eins konar gjörningur í tilefni af Akureyrarvöku sem hefst í næstu viku.
Húsið hefur verið í niðurníðslu undanfarin ár. Deilt hefur verið um hvort ætti að rífa það eða gera það upp. Svo fór, að menntamálaráðherra friðaði húsið, KEA keypti það og nú er ætlunin að gera það upp og gefa því nýtt líf, líkt og gert var fyrir húsin tvö sunnan við, París og Hamborg.
Hugmyndin með alhvítuninni var að láta húsið líta út eins og pappamódel sem arkitektar búa til þegar ný hús eru í hönnun, segir Einar Logi Vilhjálmsson, sem tók meðfylgjandi myndir.