Þungt hljóð er í sauðfjárbændum og telja þeir framtíðarhorfur greinarinnar slæmar. Þeir segja að hækkun á afurðaverði sem sláturleyfishafar boða nægi engan veginn til að vega upp hækkanir sem orðið hafa á tilkostnaði. Margir bændur munu hugleiða að bregða búi ef ástandið batnar ekki.
Sláturleyfishafar telja sig á hinn bóginn ekki hafa svigrúm til að hækka afurðaverð á lambakjöti. Hár vaxtakostnaður geri birgðahald ákaflega dýrt og eins muni markaðurinn ekki kyngja því að lambakjöt hækki langt umfram aðrar kjöttegundir.
Sauðfjárbændur sem rætt var við bentu m.a. á að hækkunin á afurðaverði dugi bara fyrir áburðarhækkun í vor. Þá sé eftir hækkun á olíu, fjármagnskostnaði, verðbólgan o.fl. Þeir sögðu ástandið „skelfilegt“ og að bændur haldi að sér höndum við stækkun búa og framkvæmdir. Margir hugleiði að hætta sauðfjárbúskap. Þeir hætti ekki í haust, enda búnir að heyja, en ef áburður hækkar enn frekar þá muni margir ákveða næsta vor að skera hjarðir sínar næsta haust.