Elsti Íslendingurinn 107 ára

Jóhannes Ólafur Markússon er fæddur árið 1901, búsettur nú í …
Jóhannes Ólafur Markússon er fæddur árið 1901, búsettur nú í Betel í Gimli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhannes Ólafur Markússon, Joe eins og hann er kallaður í sinni heimabyggð, á 107 ára afmæli í dag og er elsti maðurinn af íslenskum ættum, en hann fæddist í Kanada og hefur búið þar alla tíð.

Joe fæddist í Árnesi skammt norðan við Gimli og ólst þar upp á bænum Fagurhóli. Hann var þar bóndi og fiskimaður en flutti til Gimli 1981 og hefur búið þar síðan.

Þrátt fyrir háan aldur er Joe líkamlega og andlega hress, en heyrnin er farin að gefa sig. Undanfarin ár hefur hann búið á Betel, heimili aldraðra á Gimli og verið bundinn við hjólastól. Þó hefur hann farið heim í hús þeirra hjóna einu sinni í viku að jafnaði, borðað þar með barni eða börnum sínum og litið á Pontiac bíl sinn í bílskúrnum, árgerð 1959. Hann talar lýtalausa íslensku, „en ég hef svo fáa til að tala málið við,“ segir hann.

Foreldrar Joes voru Guðmundur Markússon Jónsson og Ingibjörg Sigríður Finnsdóttir. Guðmundur fæddist í Fagradal í Vopnafjarðarhreppi 1860 og flutti til Kanada 1888. Ingibjörg fæddist á Kaldárbakka í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu sama ár og flutti til Kanada 1891. Guðmundur lést af slysförum 1910 en Ingibjörg dó 1951.

Mikið langlífi hefur verið í fjölskyldunni. Guðný, systir Joe, andaðist skömmu eftir 105 ára afmæli sitt 2004. Bræður hans Sveinbjörn, Einar Ólafur og Finnur urðu 92 ára, 96 ára og 101 árs í sömu röð.

Emilia Ingibjörg Markússon, kona Joe, var dóttir Sigurrósar og Alberts Sigursteinssonar í Geysisbyggð. Hún féll frá 2001, 94 ára að aldri.

Joe og Emilia eignuðust þrjú börn, Guðmund Ingiberg (Munda), Albert og Sigurrós Guðrúnu, og búa þau öll á Gimli eins og flest börn þeirra og barnabörn. Þau héldu upp á afmælið á laugardag og sem fyrr þakkaði Joe vinnusemi fyrri langlífið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert