Fálkaorðan bætist í orðusafnið

Ólafur Stefánsson með silfurverðlaunin.
Ólafur Stefánsson með silfurverðlaunin. mbl.is/Brynjar Gauti

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson sagðist ætla að sæma íslenska landsliðið í handbolta hinni íslensku fálkaorðu við fyrsta tækifæri.  Að öllum líkindum verða þeir sæmdir fálkaorðunni á miðvikudaginn eftir athöfn á Arnarhóli.

Það verður reynt að koma þessari athöfn við á Bessastöðum við hentugleika án þess að það rekist á hátíðahöldin á miðvikudaginn og mun athöfnin að öllum líkindum fara fram eftir að leikmenn hafa verið hylltir af almenningi á Arnarhóli.

Meiningin er að sæma fjórtán leikmenn íslenska landsliðsins, þjálfara liðsins og formann handknattleikssambandsins fálkaorðunni við fyrsta tækifæri en þó að það sé óvenjulegt að slík orðuveiting fari fram á öðrum tíma en um áramót eða á 17. júní þá hefur það komið fyrir.

Ólafur Stefánsson, fyrirliði, Guðmundur Guðmundsson, þjálfari, og Guðmundur Ingvarsson, formaður Handknattleikssambandsins verða sæmdir stórriddarakrossi en aðrir leikmenn verða sæmdir riddarakrossi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert