Icelandair Cargo flutti riffla fyrir Bandaríkjastjórn til Georgíu skömmu áður en átök brutust út milli Georgíumanna og Rússa. Útvarpið hafði eftir Gunnari Má Sigurfinnssyni, framkvæmdastjóra félagsins, að sendingarnar hefðu verið tvær. Fyrri ferðin hefði verið farin fyrir 3-4 mánuðum en sú síðari í júlí.
Engin skot voru í rifflunum og sendingin flokkaðist því til venjulegra flutninga en ekki til flutninga á hættulegum vörum. Hann sagði að flutningar af þessu tagi væru algengir milli landa.
Gunnar sagði að Icelandair Cargo hefði fengið öll nauðsynleg leyfi til flutninganna frá stjórnvöldum í þeim löndum sem farið var um, þar á meðal á Íslandi.