Hald lagt á sportbílinn

Sportbíllinn á skólalóð Austurbæjarskóla í dag.
Sportbíllinn á skólalóð Austurbæjarskóla í dag. mbl.is/Sighvatur

Ökumaðurinn sem ók sportbíl á skólalóð Austurbæjarskóla í dag fyrir framan börn sem þar voru, er nú í yfirheyrslu hjá lögreglunni eftir að hafa verið handtekinn. Farþegi í bílnum var sömuleiðis handtekinn og er einnig verið að yfirheyra hann. Hald var lagt á bílinn. Ökumaður er grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna.

Það var starfsmaður Austurbæjarskóla sem gerði lögreglu viðvart um athæfi ökumannsins og hafði lögregla uppi á eiganda ökutækisins sem reyndist hafa ekið bílnum. Var ökumanni veitt tiltal enda lá ekki fyrir hvað nákvæmlega hafði gerst.

Þegar lögregla sá  myndskeið sem vefsjónvarp mbl.is náði af athæfinu skýrðust málin hins vegar og var ökumaðurinn handtekinn í framhaldinu og hald lagt á sportbílinn. Bíður hann nú skoðunar með tilliti til öryggisbúnaðar.

Ökumaður er grunaður um brot á umferðarlögum, svo sem að hafa ekki sýnt nægjanlega aðgát við akstur, hraðakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þá er hann grunaður um að hafa með akstrinum gerst sekur um brot gegn hegningarlögum með því að stefna lífi eða heilsu annarra í háska. Hann er einnig grunaður um vörslu fíkniefna. 

Svæðið sem maðurinn ók á er aðgengilegt ökutækjum en er ekki ætlað þeim og kemur það fram með skýrum hætti að innakstur á það sé bannaður. Hafa skólastjórnendur nú ákveðið að loka svæðinu algerlega.

Heimild er fyrir því að leggja hald á ökutæki og í framhaldi að lögregla leggi fram kröfu um upptöku ökutækis. Ákvörðun verður væntanlega tekin á morgun um hvort slík krafa verður lögð fram. Ef það verður gert munu dómstólar taka þá kröfu fyrir og meta hana. Ef krafan er samþykkt verður bíllinn eign ríkissjóðs.

Lögreglan segir að það sé stefna hennar að taka á svona málum af fullri hörku. Þetta mál sé hins vegar all sérstakt þar sem uppátækið náðist á myndband og er málið unnið í samræmi við það.

Sjá háskaakstur mannsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka