Heildarskuldir heimilanna 963 milljarðar

mbl.is

Heildarskuldir íslenskra heimila við innlánsstofnanir námu 963 milljörðum í júlí og hækka skuldir um fjórtán milljarða frá því í júní. Þetta kemur fram á vef seðlabankans sem hefur birt nýjar tölur um inn- og útlán bankakerfisins.

Hlutfall gengisbundinna og verðtryggðra lána helst nærri óbreytt í júlí borið saman við mánuðinn á undan. Hlutfall gengisbundinna lána hefur þó aukist mikið það sem af er ári, í janúar námu gengisbundin lán 17% af heildarskuldum heimilanna en nema nú 23%. Skýrist aukningin að mestu leiti af gengisfalli krónunnar í mars síðastliðnum, að því er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

„Í júlí er þróun heildarskulda fyrirtækja á annan veg en heimila þar sem skuldir lækka um ellefu milljarða milli mánaða. Skuldir fyrirtækja hafa hins vegar verið að aukast jafnt og þétt það sem af er ári líkt og skuldir heimila og nemur vöxtur heildarskulda 35% það sem af er ári.

Líkt og hjá heimilum má einkum rekja aukna skuldsetningu fyrirtækja til gengisbundinna lána. Verðtryggð lán hafa aðeins aukist lítillega frá áramótum en sem hlutfall af heildarskuldum fyrirtækja hafa þau dregist saman um fjögur prósentustig," samkvæmt Hálf fimm fréttum.

Þar kemur fram að síðustu misseri hafa fjármálaleg skilyrði farið ört versnandi. Lausafjárskortur hefur einkennt fjármálamarkaði og leitt til þess að útlán bankakerfisins til íslenskra heimila og fyrirtækja hafa verið af skornum skammti.

Á sama tíma hefur höfuðstóll gengisbundinna lána hækkað fyrir tilstilli veikari krónu og leitt til aukinnar greiðslubyrði. Þrengingar á fasteignamarkaði hafa í för með sér að dregið hefur úr seljanleika fasteigna. Heimilum er því mjög erfitt um vik að losa fjármagn með sölu eigna, sé þess þörf, til að mæta auknum afborgunum lána, að því er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert