Má flokka sem mútur

mbl.is/Einar Falur

„Þetta er ósiðlegt og siðferðilega rangt vegna þess að gjafir af þessu tagi orka vægast sagt tvímælis og geta hugsanlega flokkast sem mútur,“ segir Stefán Erlendsson, stjórnmálafræðingur og kennari í viðskiptasiðfræði, um veiðiferðir stjórnmálamanna í boði einkafyrirtækja.

Í gegnum tíðina hefur það komið fyrir að opinberir embættismenn og stjórnmálamenn fara í veiðiferðir í boði stórfyrirtækja. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Baugur Group bauð Hauki Leóssyni, þá stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, veiðileyfi í Miðfjarðará, með að því er virðist góðum afslætti, sl. haust.

Haukur nýtti svo leyfin til þess að bjóða Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, þá borgarstjóra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra (sem segist hafa endurgreitt Hauki) og Birni Inga Hrafnssyni, þáverandi borgarfulltrúa í veiði.

Landsbankinn bauð stórum hópi efnaðra viðskiptavina sinna á knattspyrnuleik í Englandi fyrir nokkrum árum. Í þeim hópi voru margir áhrifamenn í þjóðfélaginu, m.a. núverandi hæstaréttardómari.

Fyrir nokkrum árum bauð Kaupþing þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, í veiðiferð. Nokkur umræða skapaðist í kjölfarið um þau siðferðilegu álitaefni sem tengjast gjöfum til stjórnmálamanna, en lítið hefur farið fyrir henni síðan.

Gjöfum settar skorður

Er siðferðilega verjandi að opinberir embættismenn og stjórnmálamenn þiggi gjafir frá einkafyrirtækjum? „Gjöfum til stjórnmálamanna eru mjög þröngar skorður settar. Gjafirnar þurfa að vera svo smáar og ómerkilegar að þær muni sannarlega ekki hafa áhrif á viðkomandi,“ segir Stefán.

„Hvar á að draga mörkin? Þegar um er að ræða boð í laxveiði þar sem stöngin kostar mörg hundruð þúsund krónur þá er engum blöðum um það að fletta að slík gjöf getur haft áhrif á ákvarðanir hlutaðeigandi í framtíðinni,“ segir Stefán jafnframt. Að hans sögn geta gjafir af þessu tagi haft áhrif á dómgreind viðkomandi og þess vegna er ósiðlegt að þiggja þær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert