Meintir hryðjuverkamenn komu til Íslands

Mennirnir eru grunaðir um að hafa hótað að myrða Gordon …
Mennirnir eru grunaðir um að hafa hótað að myrða Gordon Brown eða Tony Blair.

Þrír menn, sem handteknir voru á Englandi nýlega grunaðir um hryðjuverkaáform, virðast hafa haft einhver tengsl við Norðurlönd og  ferðuðust m.a. til Íslands. Þetta kemur fram í danska blaðinu Politiken í dag. Bresk lögregla hefur m.a. farið til Finnlands til að kanna ferðir mannanna þriggja þar en hjá embætti ríkislögreglustjórans hér á landi kannast menn ekki við málið.

Blaðið segir, að mennirnir þrír, sem eru 21 árs, 22 ára og 23 ára, séu allir heittrúaðir múslimar og hafi ferðast töluvert, þar á meðal til Íslands, þar sem þeir eru sagðir hafa reynt að boða trú.

Smári Sigurðsson hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, sagði við mbl.is að engar fyrirspurnir hefðu borist frá breskri lögreglu vegna þessa og embættið hefði engar upplýsingar um málið.

Politiken hefur eftir finnsku leyniþjónustunni, að lögreglumenn frá Manchester hafi komið til Helsinki í morgun til að rannsaka hvers vegna tveir mannanna voru í þann mund að fara um borð í flugvél þangað þegar þeir voru handteknir á Manchesterflugvelli 14. ágúst.

Þriðji maðurinn var handtekinn í Accrington skammt frá Manchester. Þeir eru grunaðir um að staðið að hótunum um að myrða Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, eða Tony Blair, fyrirrennara hans. Þessar hótanir birtust heimasíðu í janúar. Þar krafðist einhver, sem sagðist vera leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Bretlandi þess, að tilteknir fangar yrðu látnir lausir og að Bretar drægju herlið sitt úr úr Afganistan og Írak.

Politiken hefur eftir breska blaðinu Guardian, að bresk lögregla sé einnig að rannsaka hugsanlegt tengsl mannanna við Danmörk. Danska leyniþjónustan neitaði í samtali við Politiken að tjá sig um þetta.

Bresk lögregla verður að ákæra mennina formlega fyrir fimmtudag en þarf ella að láta þá lausa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert