Nauðsynlegt að fara að öllu með gát

Leikskólinn Álfasteinn
Leikskólinn Álfasteinn Mbl.is/Árni Sæberg

Nauðsynlegt að fara varlega út í framkvæmdir sem fela í sér meiri umferð í nágrenni við skóla. Stefna síðustu ára að aðgreina umferð gangandi vegfarenda frá umferð ökutækja.

„Menn þurfa alltaf að fara varlega út í svona framkvæmdir, ég tala ekki um ef það verður umferð stórra bíla um götuna. Þeim fylgir aukin slysahætta,” segir Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu aðspurður um mat stofnunarinnar á tengingu Suðurbrautar í Hafnarfirði við Reykjanesbrautina, en Suðurbraut liggur meðfram þremur skólum, grunnskólanum Hvaleyrarskóla og leikskólunum Álfasteini við hlið Hvaleyrarskóla og Smáralundi sem er neðar við Suðurbraut.

Sigurður bendir einnig á að stórum ökutækjum fylgdi ekki einungis aukin slysahætta heldur heldur líka meiri svifryksmengun og þá væri talsvert um það að grjót félli af pöllum slíkra bíla.

Eitt af því sem Foreldrafélag Hvaleyrarskóla hefur gagnrýnt er að bæjaryfirvöld hafi ekki látið kanna aukna mengun í kjölfar slíkrar tengingar.

Sigurður sagðist ekki vera búinn að kynna sér nægilega öll málsgögn til að geta komið með ályktun vegna málsins en eðli þess væri slíkt að óhætt væri að segja að menn þyrftu að minnsta kosti að fara að öllu með mikilli gát.

„Í Hvaleyrarskóla eru sex hundruð börn og í leikskólanum við hliðina eru tæplega hundrað. Það gefur því auga leið að þarna er mikil umferð gangandi vegfarenda. Það hefur verið stefnan undanfarin ár í umferðarmálum að aðgreina eins mikið og mögullegt er umferð gangandi vegfarenda og ökutækja og þetta virðist vera á skjön við það,” segir Sigurður.

Í umhverfismati Skipulagsstofnunar segir að þessi aukna umferð geti haft neikvæð áhrif á öryggi gangandi vegfarenda, sérstaklega í grennd við Hvaleyrarskóla, en Reykjanesbraut er ein umferðarþyngsta gata landsins.

Bæjarstjórn telur að sú eina umferðaræð  sem tengir Vallarhverfið við aðra hluta bæjarins sé ófullnægjandi þar sem æðin sé þröng og þar sé oft mikill umferðarþungi.

Foreldraráði Hvaleyrarskóla finnst hins vegar ekki forsvaranlegt að draga úr umferð í einu hverfi með því að auka umferðina í öðru. Jafnræði skuli ríkja meðal íbúa í Hafnarfirði.

Foreldrafélag Hvaleyrarskóla stendur fyrir opnum fundi  um málið með bæjarstjóra og formanni skipulagsráðs í skólanum í kvöld og hefst hann klukkan 20. Hafnfirðingar eru hvattir til þess að mæta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert