Sumir skólar gera kröfu um fartölvueign

mbl.is

Misjafnar kröfur eru gerðar til þess búnaðar sem nemendur í framhaldsskólum hér á landi þurfa að hafa. Sumir skólar láta sér nægja að gefa út bókalista og eftirláta nemendum að taka ákvörðun um hvort þeir nýta sér fartölvu í kennslustundum meðan aðrir skólar gera kröfu um fartölvu.

Í Verzlunarskóla Íslands [VÍ] er fartölvueign nokkuð útbreidd en um það bil þriðjungur nemenda nýtir sér fartölvu í skólanum. „Það eru hér sex tölvuver og því aðgangur að tölvum góður“, segir Þórður Hauksson, kerfisstjóri VÍ. „Það er misjafnt hversu virkir nemendur eru að taka fartölvurnar með sér í skólann. Menn höndla þetta misvel, sumir eru í leikjum og á netinu í tímum, eins og gengur og gerist. Það fer eftir þroska hvers og eins hvernig menn nota þetta. Nemendum er frjálst að koma með tölvur til að tengjast þráðlausa netinu en við leggjum ekki sérstaka áherslu á fartölvueign,“ segir Þórður jafnframt.

MK gerir kröfu um fartölvu

„Menntaskólinn í Kópavogi [MK] er fartölvuskóli og er gert ráð fyrir að allir nemendur skólans hafi fartölvu til umráða,“ segir á heimasíðu skólans. Hefur skólinn gefið út leiðbeiningar til nemenda um hvaða lágmarkskröfur tölvur þurfa að uppfylla. M.a. þurfa tölvurnar að hafa 80 GB harðan disk og Intel Pentium M 1.5 GHz CoreDuo örgjörva og 1 GB eða stærra vinnsluminni. Þær upplýsingar fengust hjá EJS að lægsta verð tölvu sem uppfyllir þær kröfur sem skólinn setur fram er 127.800 kr. Hjá Nýherja kostar slík tölva 130.900 kr.

„Við gerum ekki kröfu um fartölvu en sjáum til þess að allir nemendur hafi greiðan aðgang að tölvubúnaði í tölvuverum og á opnum svæðum,“ segir Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund. Að sögn Más er er um það bil fjórðungur nemenda með skráðar fartölvur inni á þráðlausu neti skólans. Eigendur fartölva hafa aðgang að skápum með innstungum þar sem þeir geta hlaðið fartölvurnar.

„Fartölvunotkun er ekki útbreidd hér og mælumst við ekki sérstaklega til þess að nemendur noti fartölvur,“ segir Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík. „Við erum með námskerfi með tölvustuddu námsefni en við gerum ráð fyrir að nemendur vinni það heima,“ segir Yngvi. Tölvuver eru í skólanum sem nýtt eru á skólatíma. Nemendum er frjálst að hafa fartölvur í kennslustundum ef þeir vilja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert