2,5 milljóna styrkur

Styrkurinn afhentur í dag.
Styrkurinn afhentur í dag.

Thorvaldsensfélagið hefur fært rannsóknarteymi á Barnaspítala Hringsins 2,5 milljónir króna styrk til gerðar nýs meðferðarefnis fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra. Var styrkurinn afhentur í dag í leikstofu Barnaspítalans að viðstöddum heilbrigðisráðherra.

Í tilkynningu frá Landspítala segir, að íslensk börn hafi á undanförnum áratugum þyngst mikið en sama þróun hafi verið í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu. Samfara þessu hafi börnum með umtalsverða offitu fjölgað mikið. Meðferðarúrræði fyrir of feit börn hafa hins vegar verið fá og sundurleit. Brýn þörf er því á slíkum úrræðum.

Síðastliðin þrjú ár hefur staðið yfir þróun og rannsóknir á meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra á Barnaspítala Hringsins. Yfir 100 fjölskyldur hafa með góðum árangri farið í gegnum námskeið sem gengið hafa undir nafninu Heilsuskólinn. Meðferðarefni Heilsuskólans hefur verið sótt til Bandaríkjanna sem rannsóknir hafa sýnt góðan árangur af í um 30 ár.

Landspítalinn segir reynsluna af notkun þess meðferðarefnisins á landi hafa leitt í ljós, að margt þurfi að bæta og laga að evrópskum og þá sér í lagi íslenskum aðstæðum. Miklar vonir séu þess vegna bundnar við að þetta nýja meðferðarefni, sem verði nú til fyrir tilstilli Thorvaldsensfélagsins, muni geta hjálpað fjölmörgum fjölskyldum á Íslandi í framtíðinni.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert