Albanar styðja framboð Íslands til öryggisráðs SÞ

Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kanna …
Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kanna heiðursvörð fyrir utan skrifstofur Berisha

Opinber heimsókn Geirs H. Haarde forsætisráðherra til Albaníu hófst í morgun með fundi hans og Sali Berisha, forsætisráðherra. Þeir ræddu tvíhliða samskipti ríkjanna, svæðisbundin mál og alþjóðamál, m.a. leiðir til að auka viðskipti og fjárfestingar, ástand og horfur á vestanverðum Balkanskaga og afleiðingar innrásar Rússlands í Georgíu.

Af hálfu albanskra stjórnvalda var þakkaður stuðningur Íslands við aðild Albaníu að NATO og ítrekaður stuðningur Albaníu við framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, að því er fram kemur á vef forsætisráðuneytisins.

Geir  átti einnig fund með Bamir Topi, forseta Albaníu, og Jozefinu Topalli, forseta albanska þingsins. Bæði lýstu þau miklum áhuga á að nýta sér reynslu Íslendinga til að efla lýðræðislega stjórnarhætti og til efnahagslegra umbóta. Í för með Geir  eru fulltrúar Landsvirkjunar Power og Actavis og heimsótti hann skrifstofu síðarnefnda fyrirtækisins í Tirana.

Á morgun leggur Geir blómsveig að minnisvarða um Albana sem hafa látið lífið fyrir ættjörðina og snæðir hádegisverð með Lulzim Basha, utanríkisráðherra Albaníu.

Það fór vel á með forsætisráðherrunum tveimur
Það fór vel á með forsætisráðherrunum tveimur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert