Bjallan hafði nýhringt inn í tíma þegar sportbíl var ekið inn á skólalóðina við Austurbæjarskóla og voru því flest börnin farin af leikvellinum og vaktmenn ekki lengur á ferli að sögn Guðmundar Sighvatssonar skólastjóra. Einn 8. bekkurinn átti hins vegar frí í tíma og voru nokkrir krakkar því úti að leika sér í pógó.
„Þau höfðu vit á því krakkarnir að koma sér í burtu frá bílnum og sögðu að hann hefði bara allt í einu ekið þarna inn án aðdraganda,“ segir Guðmundur. Hann segist ekki vita til þess að annað eins hafi gerst áður, almennt komi bílar ekki inn í portið nema í sérstökum erindum og þeir séu þá lóðsaðir af starfsmönnum. Svona hegðun eigi hins vegar ekkert erindi inn á skólalóð þar sem börnunum geti stafað mikil hætta af.
„Ég skil ekki hvernig þeim hefur dottið þetta til hugar, ég er nú búinn að vinna í grunnskóla í rúm 30 ár og þetta er með því grófasta sem ég hef séð. Maður er eiginlega bara enn í sjokki.“ Verið er að skoða hvort loka þurfi skólalóðina enn frekar af til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
Myndskeið mbl.is af ofsaakstri á skólalóðinni