Reykjavíkurborg greiðir enn Marsibil Sæmundardóttur og Margréti Sverrisdóttur föst laun varaborgarfulltrúa þrátt fyrir að þær starfi ekki lengur með þeim flokki þar sem þær voru á lista í kosningum.
Varaborgarfulltrúar skiptast í tvo hópa þegar kemur að launakjörum. Annars vegar fær fyrsti varaborgarfulltrúi hvers lista föst laun og eiga þau að vera fullnaðargreiðsla fyrir öll nefndarstörf þeirra. Þessi laun eru 70% af grunnlaunum borgarfulltrúa en geta bæði skerst og hækkað eftir því hvernig störfum þeirra í nefndum er háttað. Grunnlaun borgarfulltrúa eru aftur 80% af þingfararkaupi, þannig að borgarfulltrúar fá nú 433.376 krónur en varaborgarfulltrúar í þessum hópi 303.363 krónur.