Slysadeild Landspítalans í Fossvogi fylltist á laugardag í kjölfar Reykjavíkurmaraþons vegna hlaupara sem þurftu aðhlynningu vegna ofreynslu. Að sögn læknis virðist sem hlauparar hafi ekki verið nægilega vel undirbúnir fyrir hlaupið en ekki fylgir sögunni í hvaða vegalengdum sjúklingarnir heltust úr lestinni.
Saga hlaupara nokkurs sem tók þátt í hálfmaraþoni er fremur döpur. Hlauparinn segist nú átta sig á hvaða mistök hann gerði sem ollu því að hann hné niður þegar stutt var eftir – og rankaði við sér á spítala.
„Ég gerði þau mistök að hefja endasprettinn of snemma og var kominn á töluverðan hraða. Við það kláruðust orkubirgðirnar en engu að síður hélt ég áfram að hlaupa, nánast sjálfvirkt. En þetta endaði með því að ég féll í yfirlið og datt í götuna á síðasta kílómetranum. Sem betur fer slasaði ég mig ekki í fallinu og slapp með hrufl. Það vildi líka svo vel til að maður nokkur sá óhappið og fór að stumra yfir mér áður en ég var fluttur á spítala. Meðferðin þar gekk út á að dæla vökva í mig og sólarhring síðar hafði ég jafnað mig.“