Umhverfisverndarsamtökin Greenpeace segjast hafa komist að raun um, ekki hafi verið sótt um innflutningsleyfi í Japan fyrir 85 tonn af hvalkjöti, sem flutt var héðan til Japans í maí. Hugsanlegt sé að kjötinu verði eytt.
Greenpeace segir í tilkynningu, að forsvarsmenn innflutningsfyrirtækisins, sem beri ábyrgð á hvalkjötinu, hafi sagst vera að hjálpa vinum sínum á Íslandi, þegar þeir voru spurðir í byrjun júní um aðkomu þeirra að málinu.
Umrætt fyrirtæki hafi hafið starfsemi í maí og þrír stjórnarmenn verið skipaðir til að flytja hvalkjötið inn. Um er að ræða 80 tonn af langreyðakjöti frá Íslandi og 5 kíló af norsku hrefnukjöti.
Í dag hafi Greenpeace spurt félagið hvers vegna ekki hafi verið sótt um innflutningsleyfi fyrir fyrir hvalkjötið þótt liðnir séu tveir og hálfur mánuður frá því það kom til Japans. Fyrirtækið hafi neitað að svara.
Greenpeace segir, að samkvæmt japönskum lögum megi eyða vörum sem hugsanlega gætu skemmst í vörugeymslum, eftir þrjá mánuði, hafi tilskilin leyfi ekki borist fyrir þann tíma.
Samtökin hafa eftir japanska sjávarútvegsráðuneytinu, það það geti ekkert gert ef ekki er sótt um innflutningsleyfi. Óvíst sé hins vegar hvort og þá hvenær hvalkjötinu verði eytt.