Brotist var inn á vinnustofu textílistakonunnar Sigrúnar Láru Shanko, Shanko silki, að Skólavörðustíg 22a, í gærkvöldi eða nótt. Japanskri brúðarkápu var stolið ásamt handmáluðum silkiströngum.
Kápunnar er sárt saknað enda um fágætan grip að ræða.
Brúðarkápan er úr japönsku silki crepe og er öll handbróderuð með silki og gylltum málmþráðum. Er hún einstakt dæmi um japanskan gullsaum.
Hún er sett saman í höndum, fóðrið er rautt og er breiður faldur kápunnar vatteraður.
Kápan hefur hangið til sýnis á vinnustofu Sigrúnar Láru meira og minna síðastliðin tvö ár.
Morgunblaðið fjallaði um japanska kímonóa í janúar 2006 og var þá meðal annars fjallað um þessa kápu.
Ef einhverjir geta gefið upplýsingar um kápuna biður listakonan þá að gefa sig fram við lögregluna í Reykjavík.