Smábátafélagið Elding í Ísafjarðarsýslum leggur til að þorskkvótinn verði aukinn upp í 220.000 tonn næstu þrjú árin. Fiskveiðiárið er á enda og nýtt ár hefst fyrsta september. Félagsmenn segja sjómenn ekki hafa orðið vara við minni þorskgengd.
Á vefnum Skip.is segir að í ályktun frá Elding sé lagt til að jafnhliða því að setja á jafnstöðuafla í þorski næstu þrjá árin verði að fara yfir störf Hafrannsóknarstofnunar og athugað hvers vegna rannsóknum stofnunarinnar beri í engu saman við reynslu sjómanna.
Með því að auka kvótann upp í 220.000 tonn á ári, næstu þrjú árin, eflist þjóðarhagur og kreppu yrði afstýrt.
Þá leggur félagið til að línuívilnun verði hækkuð um 20% og að tekin verði upp handfæraívilnun til þess að slíkar veiðar leggist ekki af.