Sextán réttindalausir ökumenn stöðvaðir

Sextán réttindalausir ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þrettán þeirra reyndust þegar hafa verið sviptir ökuleyfi og þrír höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Í hópi þeirra síðarnefndu var 15 ára piltur sem var stöðvaður við akstur í Laugardal aðfaranótt laugardags en sá tók heimilisbílinn traustataki og fór á rúntinn.

Pilturinn gerðist einnig sekur um brot á útivistarreglum en hann hefði betur verið löngu kominn í háttinn í stað þess að komast í kast við lögin.

Þeir sem gerast sekir um akstur bifreiðar eða bifhjóls sviptir ökurétti eiga 60 þúsund króna sekt yfir höfði sér ef um fyrsta brot er að ræða. Ef brotið er af sér með þessum hætti í annað sinn er sektin 100 þúsund krónur.

Fimmtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Átta voru stöðvaðir á laugardag, fimm á sunnudag og tveir aðfaranótt mánudags. Ellefu voru teknir í Reykjavík og tveir í Kópavogi og Hafnarfirði.

Þetta voru ellefu karlmenn á aldrinum 19-68 ára og fjórar konur, 17, 31, 37 og 46 ára. Fjórir karlanna eru á þrítugsaldri, einn á fertugsaldri, tveir á fimmtugsaldri, tveir á sjötugsaldri og tveir undir undir tvítugu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert