Skip HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, eru nú saman að síldveiðum norðaustur af Vopnafirði og á sömu slóðum eru Lundey NS og Ásgrímur Halldórsson SF að veiðum. Að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra HB Granda á Vopnafirði, fengu skipin þó nokkurn afla í nótt og það ætti því að styttast í að Faxi RE og Ingunn AK komi inn til löndunar. Þetta kemur fram á vef HB Granda.
Lundey NS kom til Vopnafjarðar sl. laugardag með alls 1.537 tonna afla og þar af voru rúmlega 1.000 tonn af makríl. Faxi RE og Ingunn AK fengu ágætis afla á föstudag og laugardag, að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipanna, en veðráttan gerði áhöfnum skipanna erfitt fyrir á sunnudag og framan af gærdeginum en þá var leitað að síld og makríl í veiðanlegu magni.