Enn hefur ekki verið tekin endanlega ákvörðun um hvort bíllinn sem notaður var til ofsaaksturs á leikvelli Austurbæjarskóla verði gerður upptækur. Að sögn Kristjáns Guðnasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, er málið enn til rannsóknar, verið að safna gögnum og tala við vitni.
Ökumanninum og farþega, sem báðir eru um tvítugt, var sleppt í gærkvöldi að loknum yfirheyrslum en bíllinn er hinsvegar enn í haldi lögreglu og verður það þar til niðurstaða fæst. „Það verða allar upplýsingar að liggja fyrir áður en nokkuð verður gert, en við reynum að flýta þessu eins og hægt er því þetta er náttúrulega þvingunaraðgerð,“ segir Kristján. Stefnt var að því að ljúka rannsókn í dag en Kristján segist ekki viss um að það gangi eftir, svona mál geti dregist á langinn þegar hægt gengur að ná í vitni og safna saman gögnum.
Ökumaður er grunaður um brot á umferðarlögum, svo sem að hafa ekki sýnt nægjanlega aðgát við akstur, hraðakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna. Niðurstöður úr fíkniefnarannsókn eru ókomnar.